Samstarfsnefnd AA-deilda á Stór-Reykjavíkursvæðinu kýs sér oddamann úr kjörnum SAAS-fulltrúum, sem starfar í eitt ár í senn. Oddamaður SAAS er að jafnaði valinn úr hópi þeirra SAAS-fulltrúa sem hafa starfað í eitt ár. Samþykki aðalfundar þarf fyrir tilnefningu oddamanns en hann tekur til starfa að loknum aðalfundi og starfar til aðalfundar árið eftir.
Oddamaður skal kynna sér starfsvenjur og markmið SAAS. Hann heldur utan um að unnið sé eftir starfsreglum og samþykktum nefndarinnar.
Oddamaður er fundarstjóri á mánaðarlegum fundi SAAS, sem haldin er kl. 18:00 fyrsta þriðjudag í hverjum mánuði (8. starfsvenja). Hann sér jafnframt um að boða til fundarins og heldur utan um afboðanir SAAS-fulltrúa.
Oddamaður skal veita SAAS-fulltrúum sem ekki boða forföll á mánaðarlegan fund SAAS áminningu. Ef fulltrúi kemst ekki á fundinn en afboðar sig ekki í tvö skipti í röð er litið svo á að hann sé hættur störfum fyrir SAAS og kjósa þarf nýjan fulltrúa í hans stað. Ef fulltrúi boðar forföll þrjá mánuði í röð er jafnframt litið svo á að hann sé hættur störfum fyrir nefndina.Oddamaður skal deila niður verkefnum á kjörna SAAS-fulltrúa og halda utan um starf nefndarinnar í heild. Ef upp koma aðkallandi verkefni skal oddamaður úthluta þeim til fulltrúanna og stofna til sérstakra vinnuhópa ef þurfa þykir.
Oddamaður skal vera talsmaður SAAS, sambandsaðili hennar við AA-skrifstofu, Landsþjónustunefnd, svæðisnefndir o.s.frv. Hann tekur einnig á móti pósti sem SAAS berst og kynnir efni hans á fundum.
Oddamaður hefur, ásamt gjaldkera, prókúru að reikningi SAAS þann tíma sem hann starfar.
Oddamaður skal að öllu jöfnu vera ráðstefnufulltrúi SAAS á Landsþjónusturáðstefnunni sem haldin er einu sinni á ári.
Oddamaður telst hafa lokið störfum þegar tilnefning nýs oddamanns hefur verið samþykkt á aðalfundi SAAS. Hann afhendir þá eftirmanni sínum öll gögn sem eru í hans vörslu.