Símanúmer neyðarsímans er 895-1050
Hér fyrir neðan er handbókin sem fylgir neyðarsíma AA
NEYÐARSÍMI AA – HANDBÓK 22.2.2024
Handbók með neyðarsíma AA Vinsamlegast lesið yfir handbókina áður en tekið er við þjónustu neyðarsímans
Til hamingju að taka þetta öfluga 12.spor og taka við neyðarsíma AA. Þjónusta neyðarsímans fellur undir starfsemi Samstarfsnefndar AA-deilda á Stór-Reykjavíkursvæðinu (SAAS) og er opin allan sólarhringinn fyrir einstaklinga í leit að aðstoð vegna áfengis- eða vímuefnavanda. Þú hefur fengið símann í hendurnar því þér er treyst fyrir því að leiða fólk í vanda í átt til bata. Megin markmið þessarar þjónustu er að leiða viðkomandi í átt að leið AA-samtakanna.
Þessi handbók samanstendur af eftirfarandi köflum:
Áður en haldið er áfram:
Í tösku neyðarsímans er eftirfarandi:
➢ Neyðarsíminn sjálfur: Nokia 8210
➢ Hleðslusnúra & USB hleðslukló eða hleðslutæki
➢ Þessi handbók
➢ Fylgiskjal með lista yfir stofnanir, úrræði og aðra aðstoð
➢ Fylgiskjal með útkallslista
➢ Skýrslubók & penni
➢ Taska utan um þennan pakka
Vinsamlegast farðu yfir þennan lista þegar þú tekur við töskunni. Ef að eitthvað vantar listanum þá vinsamlegast sendu skilaboð á fulltrúa neyðarsímans. Símanúmer fulltrúa má finna í símaskrá símtækisins. Fulltrúar neyðarsímans innan SAAS gætu átt auka eintök af atriðum af þessum lista til vara ef þau hafa glatast.
Kaflar 1 & 2 hér að neðan innihalda reglur um umgengni, framkomu og hegðun þess sem ber ábyrgð á neyðarsímanum. Þær eru settar til að passa upp á gæði þjónustu neyðarsímans og ber að fylgja í einu og öllu nema að annað sé sérstaklega tekið fram af fulltrúa innan SAAS.
Meðfylgjandi í tösku neyðarsímans eru einnig tvö fylgiskjöl sem innihalda yfirlit yfir stofnanir, úrræði og aðra aðstoð sem er gott að hafa við höndina annarsvegar og útkallslistann hins vegar.
SAMSTARFSNEFND AA-DEILDA Á STÓR-REYKJAVÍKURSVÆÐINU - SAAS.IS 1
NEYÐARSÍMI AA – HANDBÓK 22.2.2024
1) Síminn og allt sem honum fylgir er eign SAAS. Öllu þessu, sbr. 1. kafla í þessu skjali, skal afhenda næsta ábyrgðarmanni eða fulltrúa innan SAAS þegar þinni vakt lýkur. 2) Síminn skal ávallt vera hlaðinn þannig að hann endist daginn eða að taskan með fylgihlutum sé til meðferðar.
3) Hringitóni, hljóðstyrk hringinga, bakgrunni, þema og öðrum stillingum má ekki breyta og skal hljóðstyrkur vera sá sami allan sólarhringinn, alla daga.
4) Ekki má breyta, eyða eða bæta við símaskrá símans eða öðrum gögnum sem eru á honum, minniskorti hans nema að viðbót gagna styðji sérstaklega við erindi sem verið er að sinna. Ef svo er skal passa sérstaklega upp á persónugreinanlegar upplýsingar í anda erfðavenja AA. Ekki má eiga við þessa handbók eða fylgiskjöl hennar.
5) Stranglega bannað er að afrita gögn sem fylgja neyðarsímanum eða dreifa þeim til þriðja aðila. Þar með talin eru útprentuð gögn ásamt stafrænum gögnum á símtækinu og minniskorti hans.
6) Gott er að fara yfir hvað fylgir töskunni á bls. 1 áður en henni er komið á næsta aðila.
1) Allt sem fylgir þessari þjónustu er trúnaðarmál í anda erfðavenja AA. Þar með talið eru gögnin sem þú sérð og færð afhent, símtölin þín og önnur upplifun. Forðastu að ræða viðkvæm mál við aðra en fulltrúa innan SAAS eða þinn trúnaðarmann.
2) Skilyrði þess að sjá um símann er að vera tilbúinn til þess að svara öllum símtölum sem kostur gefst til að svara, líka á nóttunni.
3) 12.spors fulltrúi hverrar deildar er ábyrgur fyrir því að fólkið sem sinnir símanum sé komið með eitt ár edrú, hafi unnið 12 reynsluspor samtakanna og sé virkt í AA starfinu. 4) Ef þið vitið ekki hvernig þið eigið að snúa ykkur í einhverju máli sem berst símanum þá er ráðlagt að biðja um að fá að hringja í viðkomandi eftir skamma stund og reyna að ná á aðal eða varafulltrúa neyðarsímans. Símanúmerin þeirra eru í símtækinu undir „Ábyrgðaraðili“ og „Varafulltrúi“. Ef ekki er hægt að ná í þau leitið þá til einhvers með góðan edrútíma og bata, t.d. 12.spors fulltrúa í ykkar deild eða trúnaðarmanns sem þið treystið. Munið að við erum ekki fagaðilar, ekki setja óraunhæfar kröfur á ykkur sjálf. Mætum fólkinu sem jafningjum, án fordóma og stjórnsemi heldur deilum frekar okkar styrk og von sem við höfum verið svo lánsöm að njóta.
5) Allskonar símtöl koma inn, ekki bara frá alkahólistum. Oft eru það aðstandendur eða fólk sem líður almennt illa og veit ekki hvert það á að leita. Við deilum reynslu og visku sem við eigum til en förum ekki of mikið út fyrir verkahring AA. Þess vegna getur verið gott að skoða fylgiskjalið „Stofnanir, úrræði og önnur aðstoð“ sem fylgir handbókinni til að sjá hvert er hægt að benda fólki áfram þegar við höfum sinnt því sem við getum. Oft vill fólk fá viðurkenningu, stuðning og ráð en við gerum þeim það ljóst að við erum einungis óvirkir alkóhólistar sem viljum hjálpa öðrum að eignast það sem við höfum fengið; nýtt líf, en að við erum ekki fagaðilar með sérþekkingu á sviðum utan þess sem við höfum lært innan AA. Við megum hins vegar alveg deila því sem við höfum gengið í gegnum ef það getur orðið
SAMSTARFSNEFND AA-DEILDA Á STÓR-REYKJAVÍKURSVÆÐINU - SAAS.IS 2
NEYÐARSÍMI AA – HANDBÓK 22.2.2024
viðkomandi að gagni. Varast skal að fara út í málefni sem við höfum ekki reynslu af sjálf, s.s. Al-Anon, ef við höfum ekki reynslu af slíku.
6) Þú sem ábyrgðaraðili símans ferð ekki í útkall (nema í undantekningartilfellum). Það er einungis vegna þess að þá gætu aðstæður orðið þannig að þú fáir neyðarsímtal í miðju útkalli. Þú verður að geta svarað símanum þegar hann hringir. Ef það gerist að þú missir af símtali, ekki örvænta, heldur hringir þú bara í númerið til baka um leið og tími gefst. Ef innhringjandi svarar ekki þá höfum við gert það sem við gátum.
Með því að taka við þjónustu neyðarsíma AA samþykkirðu að fylgja öllum reglum í köflum 1 & 2. 3. ÚTKÖLL
Útkall á vegum neyðarsíma AA er þegar viðmælandi biður um hjálp í persónu eða að þú metur það svo að betur væri hægt að hjálpa viðkomandi með því að mæta á staðinn. Útköll geta einnig verið það að fara með viðkomandi á AA-fund. Útkallslistann má finna í fylgiskjali 2 með þessari handbók.
Ef það þarf að hringja í útkall, tryggðu að tvær manneskjur fari saman. Ef einungis einn aðili af listanum kemst í útkall má viðkomandi finna AA-félaga til þess að taka með sér. Hægt er að bjóða viðkomandi á fund sem þú ætlar þér á. Mikilvægt er að tryggja að aðstæður séu öruggar áður en fólk er sent í útkall og að fólk sem fer í útkall ræði fyrst sjálft við viðkomandi í síma áður en farið er af stað. Þeir sem eru á útkallslista gerir sig fyllilega grein fyrir því að þau gætu átt von á símtali frá neyðarsímanum um miðjan nótt. Við erum ekki að senda fólk í útkall ef við heyrum að einstaklingurinn er of ölvaður eða eins og stendur í AA bókinni bls. 87: “Reyndu ekki að fást við hann meðan hann er of ölvaður nema hann sé beinlínis hættulegur og fjölskyldan þurfi þess vegna á hjálp þinni að halda. Bíddu eftir því að drykkjutúrnum hans lýkur, eða að minnsta kosti eftir því að hægt sé að ná sæmilega til hans.” Gott er að kynna sér vel kaflann “Að starfa með öðrum” í AA-bókinni og kaflann um 12.sporið í 12&12. Einstaklingur sem er of ölvaður er ófær um að taka við boðskapnum, hann gæti haldið þér í marga klukkutíma og er jafnvel líklegur til þess að gleyma öllu daginn eftir. Ef einhver sem þú telur vera undir of miklum áhrifum þarf á aðstoð þinni að halda getur þú gert áætlun með viðkomandi um að heyra aftur í þér daginn eftir þegar runnið hefur að minnsta kosti aðeins af honum og þaðan skipuleggið þið saman næstu skref.
Mundu tilgang þinn þegar þú ferð í útkall og varastu meðvirkni eða að fara út fyrir verksviðið. 4. GRUNUR UM OFBELDI & ANNAÐ LÖGBROT
Þú sem ábyrgðarmaður neyðarsímans ert með mikla persónulega reynslu í áföllum og fíkn. Í þeim heimi geta miður skemmtileg mál komið upp líkt og ofbeldi og annað lögbrot sem oft er erfitt eða ómögulegt að horfa fram hjá. Ef minnsti grunur verður uppi hjá þér um eitthvað misjafnt sem þú telur að þurfi að taka á skaltu ljúka símtalinu eins fljótt og hægt er og hringja strax í 112 og aðstoða Neyðarlínuna við bestu getu að ná stjórn á málinu. Ekki reyna að leysa
SAMSTARFSNEFND AA-DEILDA Á STÓR-REYKJAVÍKURSVÆÐINU - SAAS.IS 3
NEYÐARSÍMI AA – HANDBÓK 22.2.2024
málið sjálfur nema að því marki að lágmarka slæmar afleiðingar og sinna þínum skyldum sem samfélagsþegn. Forðastu að hafa samband aftur við viðkomandi nema að þú sért beðinn um það af neyðarverði eða að þú teljir öruggt að það hjálpi til í málinu. Enginn fer í útkall þegar grunur er um slíkt.
Töskunni sem fylgir með neyðarsímanum fylgir stílabók. Þar skaltu skrá niður hnitmiðaðar og stuttorðaðar skýrslur yfir símtölin sem þú færð. Skráðu niður dagsetningu og um það bil klukkan hvað símtalið var. Sumum hentar að skrifa niður skýrslu jafn óðum eftir hvert símtal og öðrum að taka saman daginn í lok hvers dags.
Dæmi um færslur í skýrslubók:
1) 14.2.2024 - Maður hringir undir áhrifum að biðja um ráð og útskýringu á hvað alkóhólismi er. Áttum gott samtal - Hann ætlar á AA-fund.
2) 15.2.2024 - Aðstandandi hringir. Biður um ráð varðandi son sinn. Benti henni á Al-Anon og viðtal við ráðgjafa upp í SÁÁ.
3) 16.2.2024 - Kona í mikilli örvæntingu biður um hjálp, XXX og XXX voru sendar í útkall. Allt fór vel.
Þesskonar færslur eru til að næsti aðili sem tekur við símanum geti flett til baka og séð hvernig virknin í símanum hefur litið út að undanförnu og geti jafnvel dregið lærdóm um hvernig hann megi bera sig að í svipuðum aðstæðum. Hafa skal erfðavenjur AA-samtakanna í huga, sýna t.d. ekki dómhörku og passa að upplýsingarnar séu ekki persónugreinanlegar.
Ekki má gleyma að neyðarsímanum berst þónokkur símtöl sem snúast ekkert um að fá hjálp eða að fólk vilji hætta að drekka. Alkóhólistum á það til að leiðast og vill stundum bara hringja í einhvern til að “spjalla”. Gott er að athuga viljastyrk viðkomandi, fara yfir með honum hvort hann hafi raunverulegan áhuga á að hætta að drekka og hvað hann vilji leggja á sig til að ná því. Þetta er gott að gera til að lágmarka tímann sem fer í óþarfa spjall sem teppir línuna og áður en sent er í útkall til viðkomandi.
Til hamingju með þetta mikilvæga 12. spor og gangi þér vel!
SAMSTARFSNEFND AA-DEILDA Á STÓR-REYKJAVÍKURSVÆÐINU - SAAS.IS