AA fundir í fangelsum eru hefðbundnir AA fundir þar sem 12 reynsluspor og 12 erfðavenjur eru hafðar í heiðri og markmiðið er að flytja öðrum alkóhólistum boðskap AA samtakanna.
Þeir sem koma með fundi skulu leiða og slíta fundinum. Miða skal tímalengd leiðara við, að sem flestir komist að og hafi möguleika á að tjá sig.
Í upphafi og lok fundar er vistmönnum tilkynnt að þeim gefist kostur á að fá sér trúnaðarmann. Trúnaðarmaður er sá sem sem hefur unnið og öðlast bata fyrir tilstilli 12 reynslupora AA. Ef þeir sem fara með fundinn treysta sér ekki til slíks, þá er hægt að fá lista hjá ábyrgðarmönnum yfir þá sem eru tilbúnir til að aðstoða vistmenn við að vinna 12 reynsluspor. Rétt er að árétta að þetta gildir einnig um fjarfundi og er þá fjarfundarbúnaðurinn notaður til þess.
Tjáning miðast við eigin reynslu og þeim bata sem viðkomandi hefur öðlast með því að vinna 12 reynsluspor AA. Aðrar lausnir, hversu góðar sem þær eru eiga ekki heima á AA fundum í fangelsum.
Rétt er að hafa eftirfarandi í huga við tjáningu á fundum í fangelsi:
Við tjáningu er rétt að hafa í huga að við gerumst ekki dómarar í annarra málum né gefum öðrum góð ráð. Undir engum kringumstæðum gerum við athugasemd við tjáningu vistmanna. Slíkt getur komið í veg fyrir að við getum orðið að liði og mögulega komið í veg fyrir að vistmenn vilji leita til AA.
Gert er ráð fyrir að þeir sem fara með fundi í fangelsi lesi 7. Kafla AA bókarinnar “Að starfa með öðrum” en þar er nákvæm lýsing á því, hvernig við berum okkur að við að bera út boðskap AA.
Ef eitthvað óvænt eða óvenjulegt gerist á AA fundi er það tilkynnt til ábyrgðarmanns fundarins. Hann sér síðan um að taka það fyrir á næsta samviskufundi ef þörf krefur.
Þjónusta AA við fangelsin er í höndum SAAS. Mikilvægt er að þeir sem eru að þjónusta fangelsin kynni sér starfsemi SAAS, www.saas.is Þar er einnig að finna þær umgengnisreglur sem stofnanir setja og okkur ber að fara eftir þegar við förum með fund á viðkomandi stofnun.
Ekki er gerð sú krafa að þeir sem fara með fjarfundi í fangelsi hafi öðlast til þess samþykki Fangelsismálastofnunar.
Miði með símanúmeri viðkomandi stofnana er staðsettur við tölvu ásamt innhringinúmerum fjarfunda.
Tíu mínútum fyrir fund er hringt í varðstofu viðkomandi fangelsis og fundurinn tilkynntur.
Gert er ráð fyrir að tveir og allt að þrír komi með hvern fund. Ef tveir mæta þá skulu þeir hafa starfað í AA og öðlast bata fyrir tilstilli 12 reynsluspora AA. Heimilt er að taka þriðja mann með á fjarfund sem hefur styttri edrútíma en hinir tveir. Góður kostur er ef þriðji maður er fyrrverandi fangi sem hefur öðlast bata fyrir tilstilli 12 reynsluspora AA. Ef þriðji maður er með þá er það tilkynnt til ábyrgðarmanns fundarins.
Þeir aðilar sem ábyrgir eru fyrir að koma með fjarfundina bera ábyrð á umgengni fjarfundaherberinu í 12 spora húsinu. Það felur í sér að sjá til þess að herbergið sé snyrtilegt, að AA bók sé til staðar, að loka og læsa herberginu eftir að fundi lýkur. Mikilvægt er að einungis þeir sem bera ábyrgð á að koma með fundina og eru skráðir fyrir fundunum, viti lykilorðið af talnalásnum og ekki er heimilt að láta það í hendur annara. Einnig er mikilvægt að einungis séu þrír stólar inni í herberginu og ber þeim sem koma með fundi að fjarlægja auka stóla úr herberginu, ef svo ber undir. Ef eitthvað er athugavert varðandi ástand herbergisins ber þeim að tilkynna það ábyrgðaraðilum/ tengiliðum viðkomandi stofnanna.
Vegna Covid 19. Á meðan fjarfundir eru haldnir á Covid tímum er það á ábyrð þeirra sem skráðir eru fyrir fundum að sinna nauðsynlegum sóttvörnum. Það felur í sér að spritta hendur áður en komið er inn í herbergið og halda fjarlægð á milli sín skv. leiðbeiningum Landlæknis.
Aðeins þeir sem hafa fengið samþykki Fangelsismálastofnunar geta farið með fundi í fangelsi.
Gert er ráð fyrir að tveir komi með AA fundinn.
Ef fundir forfallast á síðustu stundu er það tilkynnt til viðkomandi fangelsis.
Tveir aðilar skuldbinda sig til að bera ábyrgð á að fara með fund í fyrirfram ákveðið fangelsi aðra hverja viku, í a.m.k. 6 mánuði í senn. Báðir eru jafn ábyrgir fyrir fundinum. Ef annar forfallast einhverra hluta vegna er það tilkynnt tímanlega til ábyrgðarmanns. Við forföll er notast við nöfn á varamannalista til að finna staðgengil og er það í höndum þeirra sem fara með fundinn að finna hann. Ef það ber ekki árangur þá er það tilkynnt til ábyrgðarmanns.
Hafa skal í huga, að við ítrekuð forföll eða gáleysi geta menn misst réttinn til að fara með fundi í fangelsi.