Neyðarsími AA: 895-1050

Aðalfundur SAAS sem vera átti sunnudaginn 15. mars fellur niður
UMSÓKNIR EINSTAKLINGA
UMSÓKNIR AA DEILDA

Um SAAS

SAAS er samstarfsnefnd AA-deilda á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Nefndin sér um sameiginleg málefni AA-deilda á starfsvæði sínu, sem er Reykjavík, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Seltjarnarnes og Mosfellsbær. SAAS heldur utan um fundi á sjúkrahúsum og stofnunum, skammstafað SOS, í samvinnu við hlutaðeigandi aðila og AA-félaga. Þær stofnanir sem um ræðir eru deild 33-A, Vogur, Krýsuvík, Kleppur og Hegningarhúsið við Skólavörðustíg. Auk þess sér SAAS um Neyðarsíma AA-samtakana, rekstur og mönnun bæði við símsvörun og 12. spors útköll sem til falla í gegnum Neyðarsímann. Einnig er starfandi Upplýsinganefnd innan SAAS.

SAAS fundar einu sinni í mánuði, fyrsta þriðjudag hvers mánaðar kl. 18:30-19:30 í Gula-húsinu að Tjarnargötu 20. Á síðunni má finna fundargerðir og þau skilyrði sem sett eru varðandi það að fara með fundi á stofnanir og aðra starfsemi á vegum SAAS.

Starfsvenjur

 1. Aðild að SAAS eiga allar AA-deildir á Stór-Reykjavíkursvæðinu sem þess óska. Nýstofnaðar deildir á svæðinu öðlast aðild að nefndinni um leið og þær eru tilkynntar til skrifstofu Landsþjónustunefndar.
 2. Aðildardeildir SAAS gera tillögur um tilnefningu fulltrúa í nefndina og skulu þær hafa borist eigi síðar en 2 vikum fyrir auglýstan aðalfund, enda hafi verið send skrifleg beiðni í deildirnar þar sem óskað er eftir tilnefningum. Miða skal við að tilnefndir aðilar hafi minnst 2ja ára edrúmennsku og séu virkir AA-félagar.
 3. Í SAAS skulu vera eins margir fulltrúar og þörf er á til þess að sinna störfum SAAS. Velja skal a.m.k. einn varamann á móti hverjum tveimur aðalmönnum, en samþykki aðalfundar SAAS þarf fyrir tilnefningu oddamanns og gjaldkera. Fulltrúar skuldbinda sig til að starfa í nefndinni í 3 ár í senn, en geta ekki starfað aftur í nefndinni fyrr en að 5 árum liðnum.
 4. Mæti nefndarmenn ekki á tvo nefndarfundi í röð og láti ekki vita af sér, er litið svo á að þeir séu hættir í nefndinni og varamaður er kallaður til.
 5. SAAS skal halda a.m.k. 2 fundi á ári með fulltrúum deilda og oftar sé þess talin þörf. Fyrri reglulegi fundur nefndarinnar skal vera aðalfundur og skal hann haldinn fyrsta sunnudag í mars, nema óviðráðanleg atvik hamli. Síðari fundur nefndarinnar skal vera kynningarfundur SAAS haldinn í september. Fundi þessa skal boða bréflega til aðildardeilda með góðum fyrirvara (sjá dagskrá aðalfundar).
 6. Til setu á fundum, skv. 5. gr. velur samviska hverrar deildar einn fulltrúa og annan til vara. Báðir hafa rétt til setu á fundunum, sé þess óskað. 7. Allar aðildardeildir eru eftir sem áður sjálfstæðar (sjá 2., 4. og 9. erfðavenjurnar) og geta hver um sig leitað til Landþjónustunefndar og/eða skrifstofu Landþjónustunefndar án milligöngu SAAS, sem eingöngu er ætlað þjónustuhlutverk í sameiginlegum málefnum AA-deilda svæðisins.
 7. Allar aðildardeildir eru eftir sem áður sjálfstæðar (sjá 2., 4. og 9. erfðavenjurnar) og geta hver um sig leitað til Landþjónustunefndar og/eða skrifstofu Landþjónustunefndar án milligöngu SAAS, sem eingöngu er ætlað þjónustuhlutverk í sameiginlegum málefnum AA-deilda svæðsins.
 8. Reglulegir fundir SAAS eru fyrsta þriðjudag hvers mánaðar kl. 18:30 og standa í 1-1,5 klst. eftir því sem þörf er á og eru opnir AA-félögum til áheyrnar.
 9. SAAS hefur sjálfstæðan fjárhag og er óháð öðrum fjárhagslega skv. 7. erfðavenjunni, enda skulu tekjur SAAS vera frjáls framlög AA-deilda.
 10. Fjárhagsárið er almanaksárið.
 11. Ávallt skal vera til í sjóði nægilegt fjármagn til rekstur SAAS í 6 mánuði (viðmið er 150.000 sett starfsárið 2015-2016). Ef umfram fjármagn er til í sjóði um hver mánaðarmót skal það renna til Landsþjónustunefndar. Að minnstar kosti skal allt umfram fjármagn í sjóði skv. ársuppgjöri renna til Landsþjónustunefndar fyrir aðalfund SAAS.
 12. Á SAAS fundum skal tryggja að ávallt sé unnið að markmiðum SAAS.

Markmið

 1. Að vinna að sameiginlegum málum AA-deilda á Stór-Reykjavíkursvæðinu, í nánu samstarfi við Landsþjónustunefnd AA-samtakanna.
 2. Að flytja boðskap AA-samtakanna á Stór-Reykjavíkursvæðinu og utan þess, þar sem þess er óskað, í anda 12. sporsins.
 3. Að annast tengsl við meðferðarstofnanir, fangelsi og sjúkrahús og skipuleggja heimsóknir AA-félaga vegna funda á framantöldum stöðum, sé þess óskað.
 4. Að skapa vettfang/tækifæri fyrir AA-félaga til að taka þátt í 12. spors starfi.
 5. Að skipuleggja Símaþjónustu AA-samtakanna.
 6. Að standa vörð um reynsluspor og erfðavenjur AA-samtakanna.

Hvað gerir SAAS fyrir alkóhólista?

SAAS sér um að manna fundi inná stofnanir þar sem alkóhólistar dvelja s.s. sjúkrahús, meðferðarheimili og fangelsi.

SAAS rekur líka neyðarsíma fyrir alkahólista sem vilja hætta drykkju og vantar hjálp til þess. Fólkið sem svarar í símann hefur upplýsingar um úrræði og sé talinn ástæða til kemur AA fólk í útköll til alkóhólistans.

Hvað gerir SAAS fyrir aðra?

SAAS er með upplýsinganefnd á sínum snærum sem sér um að miðla upplýsingum til stofnana og almennings.

Aðstandendum í vanda býðst að hringja í AA neyðarsímann til að leita sér upplýsinga. AA félagar koma í útköll til alkóhólistans ef þess er óskað.

Heimasíða Al-anon er hægt að nálgast hérna á þessari síðu: http://www.al-anon.is/. Þar er hægt að nálgast upplýsingar fyrir aðstandendur og hvaða úrræði standa til boða.

Hvað get ég gert fyrir SAAS?

Mætt sem áheyrnarfulltrúi fyrir þína deild á SAAS fundi og með tímanum orðið þjónustufulltrúi í SAAS.

Skráð þig til að vera með AA neyðarsímann og fara með fundi inná stofnanir.

Greitt framlög til SAAS til að halda starfinu gangandi.

Vinsamleg tilmæli frá SAAS:
Mikilvægt er að hægt sé að rekja fjárframlög til viðeigandi deilda og biðjum við því um að nafn deildar sé sett sem skýring með millifærslum